Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 618/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 618/2021

Miðvikudaginn 26. janúar 2022

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Björn Jóhannesson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 24. nóvember 2020, kærði C lögfræðingur, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, úrskurð Barnaverndarnefndar B, dags. 12. október 2021, varðandi umgengni hennar við D.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan, D, er X ára gömul. Móðir stúlkunnar, sem er kærandi þessa máls, var svipt forsjá hennar með dómi Héraðsdóms B 23. mars 2021. Landsréttur staðfesti dóm héraðsdóms þann 18. júní 2021. Barnaverndarnefnd B fer með forsjá stúlkunnar. Stúlkan hefur verið í fóstri hjá sömu fósturforeldrum frá 14. október 2019, fyrst á grundvelli 84. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) og síðan frá 6. september 2021 í varanlegu fóstri. 

Á meðan málið var til meðferðar dómstóla átti kærandi umgengni við stúlkuna einu sinni í viku á fósturheimilinu þar sem fósturmóður var viðstödd. Óskir kæranda um umgengni í varanlegu fóstri voru þær að umgengni væri tvisvar í viku og að stúlkan fengi að gista heima hjá kæranda tvisvar sinnum í mánuði. Í greinargerð stafsmanna Barnaverndar B, dags. 23. september 2021, sem lögð var fyrir barnaverndarnefndina, kom fram það mat starfsmanna að kröfur móður væru ekki raunhæfar og þjónuðu ekki hagsmunum stúlkunnar. Lögðu starfsmenn til að umgengni yrði fjögur skipti til reynslu, annan hvorn mánuð, í eina klukkustund í senn, á fósturheimilinu og að umgengni yrði síðan endurskoðuð í mars 2022. Ekki náðist samkomulag við kæranda um umgengni í varanlegu fóstri. Barnaverndarnefnd B kvað upp úrskurð varðandi umgengnina á fundi nefndarinnar þann 12. október 2021.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem bent er á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

Barnaverndarnefnd B ákveður að D, hafi umgengni við móður sína í fjögur skipti til reynslu eða í október, nóvember, janúar og mars. Umgengni fari fram á fósturheimili telpunnar í allt að eina klukkustund í senn. Starfsmaður Barnaverndar B verði viðstaddur umgengni í tvö af fjórum skiptum.

Umgengni verði endurmetin í mars 2022 til að meta hvort umgengni haldi áfram með sama hætti.“

Kæra, dags. 9. nóvember 2021, barst úrskurðarnefnd velferðarmála með bréfpósti, 17. nóvember 2021. Samkvæmt póststimpli var kæran póstlögð 12. nóvember 2021. Í kæru kemur meðal annars fram að tengsl stúlkunnar og kæranda séu sterk og umgengni hafi alla tíð gengið vel. Stúlkan hafi lýst því yfir að hún vilji vera í samskiptum við móður sína og þá hafi fósturforeldrar ekki lagst gegn því að halda umgengni í sama horfi.

Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 17. nóvember 2021, var óskað eftir skýringum lögmanns kæranda á því hvers vegna kæra hafi borist að kærufresti liðnum með vísan til 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Skýringar lögmanns bárust með tölvupósti, dags. 1. desember 2021, og kom þar fram að kæra hafi verið send í bréfpósti 9. nóvember 2021, innan kærufrests. Fyrir mistök hafi láðst að senda kæruna einnig í tölvupósti sama dag. Um mannleg mistök hafi verið að ræða og einungis skeiki örfáum dögum frá því að kærufrestur rann út og þar til kæran hafi verið móttekin af úrskurðarnefnd velferðarmála. Lögmaður kæranda ber fyrir sig að afsakanlegt geti talist að kæran hafi ekki borist fyrr í skilningi 1. mgr. 28. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda hafi hún farið frá kæranda innan lögbundins kærufrests. Fram kemur að lögmaður kæranda hafi kannað afstöðu Barnaverndarnefndar B sem leggist ekki gegn því að kæran verði tekin til efnislegrar meðferðar. Þá vísar lögmaður kæranda til dóms Héraðsdóms B frá 4. júlí 2018 í máli nr. E-2174/2017 þar sem kveðið sé á um sérlega mikilvægt innlegg í málefni borgarana í samskiptum við yfirvöld. Fram kemur í bréfi lögmanns að kærandi hafi mikilvæga hagsmuni af úrlausn kærunnar. Kærandi hafi í einu og öllu verið til samstarfs við barnavernd en aðeins gert þá kröfu að fá aukna umgengni við barn sitt. Öllum aðilum sé það til tekna að málið verði tekið til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir þau mistök sem hafi átt sér stað.

Með bréfi, dags. 1. desember 2021, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B sem barst með bréfi, dags. 21. desember 2021. Frekari gagna var ekki aflað vegna kærunnar.

II.  Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 51. gr. bvl. geta aðilar barnaverndarmáls skotið úrskurði eða ákvörðun samkvæmt 6. gr. laganna til úrskurðarnefndar velferðarmála innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi var tilkynnt um úrskurð eða ákvörðun. Þessi lagaákvæði eiga við um hinn kærða úrskurð. Þegar kæra berst að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. lagaákvæðisins, eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. þess.

Úrskurður Barnaverndarnefndar B var sendur lögmanni kæranda með Signet transfer þann 12. október 2021. Kæran barst úrskurðarnefndinni með bréfi, póstlögðu 12. nóvember 2021. Samkvæmt framangreindu byrjaði kærufrestur að líða 12. október og lauk honum 9. nóvember 2021. Líkt og fram hefur komið var kæran póstlögð 12. nóvember 2021 og barst kæran því úrskurðarnefndinni eftir að kærufestur var liðinn.

Að því er varðar 1. tölulið 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, þ.e. að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, hefur lögmaður kæranda gefið þær skýringar að kæran hafi verið póstlögð 9. nóvember 2021 en samkvæmt póststimpli var hún póstlögð 12. nóvember 2021.

Í samræmi við framanritað verður að telja að kæranda hafi verið tilkynnt um úrskurðinn í skilningi bvl. þann 12. október 2021 er lögmanni hennar var sendur úrskurðurinn með Signet transfer á uppgefið netfang lögmannsins. Því hefur ekki verið mótmælt af hálfu lögmanns kæranda.

Samkvæmt því, sem rakið er hér að framan, hafa engar nægilegar haldbærar skýringar komið fram varðandi ástæður þess að kæran barst úrskurðarnefndinni að liðnum kærufresti og ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr. Önnur atvik málsins þykja ekki leiða til þess að veigamiklar ástæður mæli með því að málið verði tekið til meðferðar á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum sökum er máli þessu vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, vegna úrskurðar Barnaverndarnefndar B frá 12. október 2021 varðandi umgengni við D, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum